Háafell tvöfaldar fjölda lasera frá Stingray

Nýlega gekk Háafell frá samningi við Stingray um tvöföldun á fjölda lasera sem Háafell hefur yfir að ráða sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn laxalús á sjákvíaeldissvæðum sínum í Ísafjarðardjúpi.
Háafell var fyrst eldisfélaga á Íslandi til þess að taka lasera í notkun gegn laxalús í maí í fyrra og hefur árangurinn verið góður eftir rúmlega árs notkun.
Ekki hefur verið þörf á að notast við sérstakar meðhandlanir gegn lús síðan laserarnir voru teknir í notkun, hvorki með lyfjum eða með mekanískum meðhöndlun um borð í brunnbátum. Rétt er að taka fram að Háafell notar einnig aðrar fyrirbyggjandi aðferðir svosem lúsapils og hrognkelsi. Jafnframt hafa verið gerðar tilraunir með því að dæla ferskvatni í kvíarnar til að gera lúsinni erfiðara um vik.
Ákvörðunin um að tvöfalda fjölda lasera byggir á reynslu okkar sem komin er og styrkir trú okkar á þessari tækni til að halda laxalúsavexti á eldisfiski niðri. Áfram leggjum við mikið uppúr að feta þann veg að lágmarka umhverfisáhrif af eldinu og tryggja sem best velferð fiskanna.